Á döfinni Verkalisti Ferilskrá Útgáfur English
Karólína
Eiríksdóttir



Tölvupóstur


Konsert fyrir tvær flautur og hljómsveit

2004
20'
2,2,2,2, - 4,2,2,1, - 2 slv. - harpa - 1. einleiksflauta (alt, piccolo), 2. einleiksflauta (bassafl., alt, piccolo), - strengir
Konsert fyrir tvær flautur og hljómsveit er skrifaður fyrir flautuleikarana Guðrúnu S. Birgisdóttur og Martial Nardeau. Verkið er í þremur þáttum.

Frumflutningur í Háskólabíói 25. janúar 2007. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Guðrún S. Birgisdóttir og Martial Nardeau, flautur, hljómsveitarstjóri Roland Kluttig.

Í tónleikaskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands 25. janúar 2007 skrifar Ingibjörg Eyþórsdóttir:
Í Konsert fyrir tvær flautur sem við heyrum hér í kvöld notar Karólína ýmsar tegundir af flautum; piccolo, alt og bassa, auk venjulegrar flautu. Harpan gegnir stóru hlutverki, enda eiga hljómur hörpunnar og flautu einstaklega vel saman. Kaflarnir hafa nokkuð ólíkt yfirbragð, bæði hvað varðar einleiksraddirnar og notkun hljómsveitarinnar. Í fyrsta kaflanum ramma kyrrstæðir hljómar í strengjum inn kaflann og blokkir hljóðmassa hljóma í blásurum, þar með töldum einleiksflautunum. Miðkaflinn er hægur og lýrískur og að því leyti er konsertinn nokkuð hefðbundinn, þó sú skilgreining nái varla að lýsa honum að öðru leyti. Mjúkur og ómþýður tónn altflautunnar sem hjómar í upphafi kaflans hæfir vel ljóðrænu yfirbragðinu, en hún kallast hér á við klarinett og strengi. Síðan bætist harpan við og kallast á við einleikhljóðfærin. Í þriðja kaflanum, sem hefst á hægum inngangi, er piccoloflautan mest áberandi þar sem hún hljómar yfir þykkum hlóðmassanum. Slagverkið gegnir einnig miklvægu hlutverki í þessum kafla, og Karólína undirstrikar það með því að hafa ekkert slagverk í fyrri tveimur köflunum.
Guðrún og Martial hafa þetta um konsertinn að segja:
Konsert fyrir tvo flautuleikara og margar flautur var saminn fyrir okkur Martial árið 2004. Höfundur nýtir sér sérkenni hinna ólíku hljóðfæra í flautufjölskyldunni og bregður upp alt-, bassa- og pikkólóflautum. Við höfum m.a. velt því fyrir okkur hvort mekanískt innslag pikkólóflautanna í lokaþætti verksins tákni eitthvað sérstakt. Kannski eru litlu flauturnar tákn fyrir litlu börnin sem gogga á heim fullorðinna? Kannski eitthvað allt annað. Endalaust mætti velta slíku fyrir sér og Karólína myndi vafalaust yppta öxlum og brosa ef ég bæri þetta undir hana. Áheyrandinn dettur inní hljóðheim og er sleppt þegar höfundi þykir nóg boðið. Hlustandinn situr eftir með möguleika á að heyra innra með sér raddir úr eigin veröld. Karólína hefur alltaf haft sinn háttinn á með upphaf og endi og það er eitt af mörgu sem hefur alltaf heillað okkur við verk hennar.