Á döfinni Verkalisti Ferilskrá Útgáfur English
Karólína
Eiríksdóttir



Tölvupóstur


Gítarkonsert

2001
23'
2,1,1,1, - 2,2,1, - 2slv. - einleiksgítar, - strengir

Argentíski gítarleikarinn Sergio Puccini frumflutti Gítarkonsert með Sinfóníuhljómsveitinni í Santa Fe í Argentínu í júní 2001.
Arnaldur Arnarson flutti konsertinn ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands 26. febrúar 2004. Árni Heimir Ingólfsson skrifaði í efnisskrá við það tækifæri:
"Gítarkonsertinn er í fjórum þáttum og var pantaður af argentínska gítarleikaranum Sergio Puccini, sem frumflutti hann ásamt sinfóníuhljómsveitinni í Santa Fe í Argentínu í júní 2001. Fyrsti kaflinn hefst á fjórum hljómum leiknum af hljómsveit og gítar, sem leiða inn í fyrsta einleikskaflann. Gítarinn er mjög í aðalhlutverki í þessum þætti, og raunar í verkinu í heild. Hljómsveitin leikur einn og einn hljóm eða nokkra saman, en það eru tónarunurnar í gítarnum sem halda öllu saman. Annar þáttur er hægur og ljóðrænn. Aftur heldur hljómsveitin sig til hlés og styður við einleikarann með kyrrlátum hljómum, en inn á milli fléttast saman fjölröddun gítars, tréblásara og marimbu. Þriðji þáttur er eins konar scherzó. Hafi lagrænir eiginleikar gítarsins verið í forgrunni fram til þessa er það nú liðin tíð. Nú er það hljóðfallið sem ræður. Fjölrytmar kallast á í gítar, lágfiðlum og sellóum, en hin hljóðfærin skapa mótvægi með lengri tónum í einfaldara hljóðfalli. Lokaþátturinn hefst með ólíkum hendingum sem settar eru fram hver á fætur annarri: rytmískt slagverksdúó, kröftugir rísandi skalar í strengum og blásurum, dynjandi sextándupartar í gítar, og punkterað stef í málmblásurum. Þessi hendingabrot kallast á um stund en víkja um síðir fyrir iðandi strengjaundirleik sem smám saman deyr út. Að lokum er ekkert eftir nema gítarinn, sem á síðasta orðið með stuttri einleikskadensu. "

Árni Heimir Ingólfsson

Frumflutningur: Centro Cultural Provincial í Santa Fe, Argentínu, 29. júní 2001, Orquestra Sinfónica de la Provincia de Santa Fe, Sergio Puccini, gítar, stj. Carlos Cuesta