Á döfinni Verkalisti Ferilskrá Útgáfur English
Karólína
Eiríksdóttir



Tölvupóstur


Óperur


Magnus Maria

Tónlist: Karólína Eiríksdóttir
Libretto: Katarina Gäddnäs, yfirfarið af Ann-Sofie Bárány
Leikstjóri: Suzanne Osten
Dramaturg: Ann-Sofie Bárány
Danshöfundur: Soledad Howe
Leikmynd: Maria Antman
Búningar: Minna Palmqvist
Hljómsveitarstjóri: Anna-Maria Helsing

Í hlutverkum:
Hillevi Berg Niska
Andrea Björkholm
Lisa Fornhammar
Ásgerður Júníusdóttir
Maria Johansson
Therese Karlsson
Annika Sjölund
Frida Josefin Österberg

Óperan byggir á sannri sögu frá Álandseyjum og fjallar um stúlkuna Maríu sem var uppi um aldamótin 1700. Hún fluttist til Stokkhólms og vann fyrir sér sem húshjálp og söng og spilaði á krám. Hún tók til þess bragðs að klæðast karlmannsfötum, bæði til að fá betur borgað, en einnig átti vel við hana að vera í hlutverki karlmanns. Það komst upp um hana og var hún ákærð og færð fyrir dómara. Prestur krafðist dauðarefsingar, en dómari tók léttar á broti hennar og dæmdi hana í tveggja vikna fangelsi upp á vatn og brauð. Þessi saga er hæfandi í dag, en hún fjallar ekki einungis um konu sem klæðist karlmannsfötum, heldur einnig um það að Magnus eignaðist kærustur og svaraði þegar dómarinn spurði hana hvort hún væri karl eða kona "ég er bæði karl og kona, en þó frekar karl". Sagan fjallar þó einnig um rétt manneskjunnar til að vera hún sjálf, en tónlistin var Magnus Mariu mikils virði og ekki þótti á þessum tíma við hæfi að konur syngju og spiluðu opinberlega, hvað þá á krám. Ástæðan fyrir því að svo mikið er vitað um ævi þessarar alþýðustúlku er að dómsskjölin eru til og þar með vitnaleiðslur.

Frumsýning 15. júlí 2014 í Alandica, Mariehamn, Álandseyjum.

Nánari upplýsingar: http://www.magnusmaria.ax


Skuggaleikur

Óperan Skuggaleikur var frumflutt 18. nóvember 2006 í Íslensku óperunni á vegum Strengleikhússins og Íslensku óperunnar.
Tónlist: Karólína Eiríksdóttir
Texti: Sjón
Leikmynd og búningar: Messíana Tómasdóttir
Leikstjóri: Messíana Tómasdóttir
Aðstoðarleikstjóri: Ástrós Gunnarsdóttir.
Söngvarar: Ingibjörg Guðjónsdóttir, sópran, Ásgerður Júníusdóttir, mezzósópran, Eyjólfur Eyjólfsson, tenór, Sverrir Guðjónsson, kontratenór
Hljóðfæraleikararnir: Zbigniev Dubik, fiðla, Sigurgeir Agnarsson, selló, Gunnlaugur Torfi Stefánsson, kontrabassi, Rúnar Óskarsson, klarinett, Einar St. Jónsson, trompet og Frank Aarnink, slagverk
Hljómsveitarstjóri: Guðni Franzson

Skuggaleikur er heilskvöldsópera byggð á samnefndri sögu eftir H.C.Andersen. Sagan er dæmisaga, þar sem skáld felur skugga sínum verkefni og sendir hann af rælni frá sér. Skáldinu til skelfingar hverfur skugginn. Löngu seinna heimsækir skugginn skáldið aftur og er þá orðinn að manni, án skugga og án siðferðiskenndar. Með fortölum og hótunum fær hann skáldið til að látast vera skuggi sinn og skáldið samþykkir auk þess að sýna honum ákeðna virðingu. Þegar skáldinu finnst loks of langt gengið og vill leiða sannleikann í ljós, geldur hann fyrir með lífi sínu.
Myndir Döllu úr skuggaleik.

SKUGGALEIKUR - Efnisúrdráttur

1. þáttur

Skáldið er statt í gistiherbergi sínu í „heitu löndunum“. Hann er þangað kominn til að skrifa sögur og ljóð um það sem er satt og gott í veröldinni. Við heimkomuna ætlar hann að færa þau þakklátum lesendum sínum. En það er allt of heitt á daginn og hann hefst við í herbergi sínu með dregið fyrir gluggana. Tíminn skáldsins fer í að leika við Skugga sinn, eða öllu heldur leika sér að honum. Á þeim leik hefst Óperan.

Þegar degi hallar dregur Skáldið tjöldin frá, hallar sér út um gluggann og skrifar hjá sér punkta um það sem hann sér. Það er Norður-Afrískt markaðstorg sem iðar lífi og við heyrum skáldlegar lýsingarnar kvikna í huga hans. Að loknum skriftum, þegar kallað er til kvöldbæna í Mosku borgarinnar, fær Skáldið sér lúr.

Um leið og Skáldið sofnar þá vaknar Skuggi hans til lífsins. Sá er beiskur yfir hlutskipti sínu og lætur sig dreyma um glæsta framtíð þar sem „Skugginn mikli rís og stofnar ríki skugga“. Það fer ekki milli mála að hann sér sjálfan sig í hlutverki hins mikla Skuggadrottins sem mun ríkja yfir kaldri jörðinni. Við lok söngs hans heyrum við torgklukkuna slá fyrsta höggið af tólf til miðnættis.

Skuggi vekur Skáldið og minnir á að nú sé sú stund upp runninn sem hann bíður á hverju kvöldi, því á miðnætti birtist heillandi fögur ljósvera á svölunum handan götunnar. Og skáldið grunar réttilega að það sé sjálf Skáldgyðjan. Hún stígur út á svalirnar og söngur hennar tekur að hljóma í nóttinni. Þau syngjast á Skáld og Skáldgyðja, syngja um sitt undursamlega samband, og hann er uppnumunn af þeim forréttindum að fá að hitta hana í eigin persónu. Hugar þeirra tvinnast saman í söngnum, en handan við róm hennar má greina annan tón, dökkan og ógnvænlegan. Þar þykir Skugganum að sungið sé til sín.

Það er fyrst þegar Skáldgyðjan kveður og fer að Skáldið áttar sig á því að hann hefur ekki stigið skrefið til fulls og gengist henni auðmjúklega á hönd. En þar sem hann er lofthræddur þá sendir hann Skugga sinn yfir í húsið til hennar. Og Skugginn snýr ekki aftur.


2. þáttur

Skáldið er komið heim til „kalda landsins“. Heldur hefur hallað undan fæti síðan við sáum hann síðast. Húsakynning eru mun fátæklegri en glæsiherbergið fyrir sunnan. Hann kemur heim og er ákafur og spenntur yfir ritdómunum um nýútkomna bók hans. En lestur þeirra eru honum sár vonbrigði, þar eru gagnrýnendur sammála um að hann hafi misst neistann, að rödd hans sé hol orðin og erindi hans þrotið.

Skáldið streitist á móti þeirri hugsun að hann sé búinn að vera og reynir með aðstoð textabrots úr nýju bókinni að kalla fram í huga sér rödd Skáldgyðjunnar, eins og hún hljómaði nóttina forðum. Það tekst ekki betur en svo að hinn dökki tónn sem faldi sig undir hinum tæra róm Skáldgyðjunnar hljómar sterkar og í fyrsta sinn kynnumst við skuggahlið Skáldgyðjunnar, Prinsessunni. Hún snýr út úr skáldlegri mynd hans af mærinni frá Orleans, gerir úr henni hryllingsmynd af vergjarnri fordæðu.

Til að bæta gráu ofan á svart, er bankað á dyrnar og Skáldinu berst bréf frá leigusalanum þar sem því er tilkynnt að frestur þess til að greiða uppsafnaða húsaleiguna sé á þrotum, að hann settur á götuna ef því verði snarhendis kippt í liðinn. Þar sem Skáldið bölvar leigusalanum og aumu hlutskipti sínu er bankað öðru sinni og ókunnur maður gengur í bæinn.

Gesturinn reynist vera Skugginn sem Skáldið lét frá sér nóttina örlagaríku í „heitu löndunum“. Hann er ríkmannlega búinn og valdsmannslegur í fasi. Eftir að Skugginn hefur gert Skáldinu ljóst að hann vilji láta það þéra sig, þá segir hann honum hvað á daga hans hefur drifið síðan þeir sáust síðast. Jú, hann dvaldi um hríð í húsi Skáldgyðjunnar, en þurfti að halda sig á göngum og í skúmaskotum og sá því ekki sjálfa dýrðina, svo Skáldið fyllir sjálft upp það sem vantar á lýsingarnar. En undir lok vistarinnar náði hann fundi hennar og þá hrópaði hún nafn Skáldsins, einu sinn. Það var óp fullt með sársauka.

Svo yfirgaf Skugginn hús Skáldgyðjunnar. Hann segir frá því hvernig hann kom undir sig fótunum með því að læðast um vistarverur mannanna og verða vitni að leyndarmálum þeirra. Þær upplýsingar notaði hann svo til að fjárkúga þá, og var nú orðinn að vellauðugum „manni“. Skáldinu óar við þessum lýsingum en ekki meira en svo að þegar Skugginn segist vilja gjalda honum fyrir að hafa leyst sig úr vistinni, þá gengst hann inn á þau býtti að í stað þess að fá greitt í peningum þá bjóði Skuggi honum með sér í ferðalag til heilsulindanna í Lichtenbad. Reyndar með þeim skilyrðum að Skáldið ferðist sem þjónn Skuggans, og segði engum að eitt sinn hafi húsbóndi hans verið skuggi, og að sjálfur myndi hann kallast skuggi húsbónda síns. Skáldið er efins um hann geti þetta en Skugginn svarar að bragði: „Það venst, trúið mér!“


3. þáttur

Við erum stödd í forgarði dansskála í borginni Lichtenbad. Prinsessa býður okkur velkomin til heilsulindanna, þar sem hrjáðir fá líkn við ólíklegustu meinum, svo sem hærðri öxl, stífum þumli og öðrum sálarsprottnum líkamskvillum. Hún snýst á hæli og gengur í grímudansinn í skálanum. Henni fylgir aumkunarverð Þjónusta, mállaus en mildileg.

Skugginn kemur arkandi með Skáldið á hælunum. Hann gerir það að leik sínum að láta Skáldið missa fótanna. Skáldið kvartar yfir því að „svona hafi þetta ekki verið í gamla daga“ hjá þeim tveimur. Skugginn hunsar kvabbið og tekur til að lesa honum fyrir ferðasöguna. Skáldið hlýðir og við sjáum að hann er að verða viljalaust verkfæri í höndum Skuggans, bæði til líkama og sálar. Þegar Skugginn kemur auga Prinsessuna kemur í ljós raunverulegt erindi hans á baðstaðinn; að ná sér í ríka konu, helst ríkisarfa.

Þá er komið að því að Skuggi og Skáld stígi í dansinn. Áður en það gerist biður Skáldið Skuggann einlæglega um að þeir verði dús, hætti að þérast og þúi þess í stað hvorn annan sem vinir. Skugginn þykist hrifinn af hugmyndinni og segist vilja mæta honum á miðri leið, að hann muni þá þúa Skáldið en Skáldið þéra hann. Við það trompast skáldið og biður Skuggann hvergi þrífast. Prinsessan verður vitni að deilunni og hrífst mjög að ákveðni Skuggans við „þjón“ sinn, enda sjálf níðingsleg við Þjónustuna sína. Hún gengur fram og gerir sig til við Skuggann. Skáldið strunsar á brott.

Skugginn arkar í dansinn með Prinsessu og taka þau tal saman. Hann segir henni að Skáldið sé skuggi hans, en því miður ansi ruglaður í ríminu; skuggatetrið haldi sig vera mann. Það þykir Prinsessu fyndið en göfugt af Skugganum að láta það eftir honum og hafa jafnvel klætt hann í föt.

Skáldið snýr aftur og hefur í millitíðinni komist að því að Prinsessan er hið mesta flagð og komin til valda í ríki sínu með svikum og morðum. Þegar hann sér að hún og Skuggi eru að ná saman reynir hann að stía þeim sundur með því að vara hana við Skugganum. Hún hlær að bullinu í Skáldinu. Og þegar hann uppgötvar að hún trúir því að hann, Skáldið, sé skuggi Skuggans þá sturlast hann.


4. þáttur

Skáldið liggur meðvitundarlaust á dýflissugólfi með höfuðið í kjöltu Þjónustunnar. Hún strýkur hár hans og raular orðlaust fyrir munni sér. Þegar hún leggur hönd hans að kinn sér kviknar tungan munni hennar og hún byrjar að syngja til hans undurblítt. Þetta er Skáldgyðjan. Skáldið vaknar við himneskan söng hennar og himnabirtu og þau syngjast á sem fyrrum.

Þá verður þessi sæti draumur að martröð þegar þau koma auga á líkin af sjálfum sér hangandi niður niður úr loftinu. Í örvæntingu spyrja þau sig hvað hafð gerst, og Skáldið áttar sig á að hvað sem það er þá sé sökin hans. Við þá uppgötvun líður yfir hann og Þjónustan leggur höfuð hans aftur í kjöltu sér eins og í upphafi atriðisins.

Nú ryðjast Skugginn og Prinsessan inn í dýflissuna með hæðnisorð á vör. Prinsessan ræðst að Þjónustunni með óbótaskömmum fyrir að vera að svíkjast undan, hún ætti að vera að flgja kórónuna eða skafa siggið af iljum prinsessu. Skugginn segir Skáldinu þau tíðindi að í dag muni hann kvænast Prinsessu, og af því tilefni vill hann gera honum höfðinglegt tilboð; að Skáldið verði vel launað og verðlaunað hirðskáld og því hampað í Akademíunni. Í staðinn þarf hann að samþykkja það lítlræði að einu sinni á ári liggi hann eins og skuggi við fætur Skuggans fyrir allra augum á hallartorginu.

Skáldið heldur nú ekki og hrópar þau viðvörunarorð til heimsins að það sé Skugginn sem sé skugginn. Við það missir Prinsessan þolinmæðina með þessum geðbilaða skugga og stingur upp á að þau lini þjáningar hans með því að taka hann af lífi. Skáldið áttar sig á því að henni er alvara og biður Skuggann að tala máli sínu, svo hún þyrmi lífi hans. Skugginn segist ekki geta það, því þegar Prinsessan sé komin í skap til að hengja þá verði hún að fá að hengja, nema Skáldið bendi á einhvern til að fara í gálgann í hans stað. Með viðbjóði á sjálfum sér bendir Skáldið á Þjónustuna.

Það þykir Prinsessu og Skugga gott val en segjast samt ætla að hengja Skáldið líka, því lítið gagn sé í svo linum andófsmanni sem honum. Þau koma fórnarlömbum sínum fyrir við hengingarstaurana, garrotturnar, og gera þau tilbúin fyrir aftöku. En áður en til hennar kemur þá tekur Prinsessa tungu Þjónustunnar úr buddu sinni og Skugginn kemur henni fyrir munni hennar á ný. Við það fær hún málið á ný og við fyrsta tón söngs hennar þekkir Skáldið, sér til hryllings og skelfingar, þar aftur vinu sína Skáldgyðjuna.

Hún segir honum að hún hafi beðið hans daga og nætur í hinum fögru húsakynnum sínum. Svo var það eitt kvöldið að hún þóttist sjá mynd hans við dyrnar að kristalssalnum og fór fram á ganginn til fundar við hann. En þá var það Skugginn sem sat fyrir henni og réðist á hana, skar úr henni tunguna og gaf hana skugga hennar í tryggðarpant uns þau hittust á ný. Og skuggi Skáldgyðjunnar var Prinsessan illa. Skáldið skelfur af skömm og örvæntingu. Um leið og Skáldið biður Skáldgyðjuna að fyrirgefa sér herða Skugginn og Prinsessan snörurnar að hálsi þeirra.

Skuggi og Prinsessa giftast, hann tekur sér nafnið Georg II. og hún Queen Antonia. Þar sem þau stíga fram á hallarsvalirnar til að taka við hyllingu þegna sinna verður almyrkvi á sólu. Og Skugginn segir okkur að nú rætist spásögnin um Skuggann mikla sem mun taka völdin á Jörðu með skuggaher sínum: „Þá verða allir skuggar einn og aldrei birtir meir ...“



Maður lifandi - Óperuleikurinn um dauðans óvissan tíma

Fyrir sópran, barítón, kontratenór og tvo leikara.
Fl., vln., vlc. & gít.
1999

Óperuleikur um Dauðans óvissa tíma
Maður lifandi eftir Karólínu Eiríksdóttur, Árna Ibsen og Messíönu Tómasdóttur var flutt í Borgarleikhúsinu í júní 1999.

MAÐUR LIFANDI er í senn ópera, leikrit og leikbrúðuverk, en kveikja þess er enski siðbótarleikurinn „Everyman“ frá ca. 1520. Höfundar blanda saman mismunandi aðferðum og margvíslegum stíl, og flétta ólíkum þáttum þannig að úr verður fágæt tegund af drama. Þarna er tekist á við þá skapandi spennu sem myndast á milli leikara, söngvara og leikbrúða, talaðs texta og sungins, hversdagslegrar orðræðu og upphafins tungutaks. Verkið er í senn fyndið, dramatískt og ljóðrænt. Hin tæra, barnslega heimssýn sem birtist í evrópskri listsköpun á miðöldum vísar leið að tímalausum kjarna mannlegrar reynslu.
„Everyman“ er afbragð annarra leikverka frá miðöldum og nýtur virðingar lærðra sem leikra, og umtalsverðra vinsælda, einkum á Bretlandi, í Niðurlöndum og Þýskalandi, þar sem það er oft sýnt. Það þjónar engum tilgangi að leika hið gamla og bernska drama fyrir íslenska áhorfendur seint á tuttugustu öld, án þess að aðlaga verkið okkar tíma og efasemdum. Til þess er nauðsynlegt að endurbyggja verkið og segja söguna af dauðastund allra manna þannig að nútímamanni þyki koma sér við.

EFNI LEIKSINS
Dauðinn kemur að sækja Mann lifandi sem er með öllu óviðbúinn. Manni lifandi tekst um síðir að semja við Dauðann um frest til að finna förunaut. Hann kallar Vináttu, Vandamenn og Eiginkonu til sín hvert af öðru og sárbænir þau um fylgd yfir móðuna miklu; öll neita og bera ýmsu við. Í örvæntingu leitar hann þá til Jarðneskra eigna, sem alltaf hafa reynst honum vel. Sú persóna er hinn mesti spaugari en jafnframt hinn versti þorpari. Jarðneskar eigur geta auðvitað ekki fylgt eiganda sínum í dauðann, en flytja honum þess í stað spásögn um örlög heimsins, og um það hvernig allt sem lífsanda dregur muni fylgja Manni lifandi í dauðann honum til dýrðar. Maður lifandi skelfist þetta tilboð og verður þessi fundur honum sár lexía. Hann býðst til að ganga í lið með Dauðanum og berjast gegn þeim háska sem heiminum stafar af Jarðneskum eignum. Dauðanum þykir ekki mikið um þessa tillögu og sýnir Manni lifandi skrautsýningu um mannlega lesti. Sýningin minnir Mann lifandi á Góðverk, gamla vinkonu hans sem kúrir hrjáð og illa haldin honum til fóta. Góðverk fjörgast ögn við góðan vilja Manns lifandi og finnur honum þann eina förunaut, sem hann á völ á. Sá tekur að sér að lemja vit í Mann lifandi svo að hann sættist við hlutskipti sitt og fylgja honum í ríki dauðans.

Frumflutningur: Strengleikhúsið í Borgarleikhúsinu, 3. júní 1999

Leikstjóri: Auður Bjarnadóttir
Leikmynd, búningar og brúður: Messíana Tómasdóttir
Tónlist: Karólína Eiríksdóttir
Lýsing: Lárus Björnsson

John Speight, barítón, Sólrún Bragadóttir, sópran, Sverrir Guðjónsson, kontratenór, Ásta Arnardóttir, leikkona, Þröstur Leó Gunnarsson, leikari, Guðrún S. Birgisdóttir, flauta, Guðný Guðmundsdóttir, fiðla, Einar Kristján Einarsson, gítar, Hrafnkell Orri Egilsson, selló, stjórnandi Oliver Kentish


Någon har jag sett / Mann hef ég séð

Fyrir sópran, mezzósópran, tenór, barítón og kammerhljómsveit.
1988
60'

Texti eftir Marie Louise Ramnefalk.
Sópran, mezzósópran, tenór, barítón og kammer hljómsveit.
Ópera í þremur þáttum.

Óperan var pöntuð af Vadstena Akademien í Svíþjóð með stuðningi NOMUS og Sænsku ríkiskonsertanna. Óperan var frumflutt í Vadstena sumarið 1988 og sumarið 1989 var hún flutt í Reykjavík á Hundadögum, síðan hefur óperan verið flutt í London og Greifswald í Þýskalandi. Óperan er byggð á samnefndum ljóðaflokki eftir sænsku skáldkonuna Marie Louise Ramnefalk.

Efnisþráður óperunnar, Mann hef ég séð, er einfaldur og skýr. Lýst er nánu sambandi tveggja persóna, Hans og Hennar. Hann er veikur og grunar að sjúkdómurinn sé banvænn. Hún hjúkrar honum og þau eiga saman síðasta sumarið sitt heima. Óttinn við dauðann og aðskilnaðinn dýpkar og treystir samband þeirra. Hversdagsleg atriði daglegs lífs fá aukið gildi. Ekkert skiptir þau máli nema það að fá að vera saman.

Hann fer á sjúkrahús og heyr þar dauðastríð sitt tengdur við pípandi tæki gjörgæslunnar. Hún berst við einsemdina og þjakandi sorg. Skilur ekki óráðshjal hans né hvernig hann með þverrandi þrótti sættir sig við hvíld dauðans.

Aðrar persónur, starfsfólk sjúkrahússins og vinir hennar, skipta hana engu. Hún er ein og fær ekki afborið söknuðinn, vetrarkuldann og dauðinn nísta hana. Hún leitar huggunar í minningunni um hann og finnur að Hann lifir í henni og þau eiga eftir að sameinast, aðeins tíminn aðskilur þau. (Vilborg Dagbjartsdóttir)

Frumflutningur 27. júlí 1988, Vadstena slott: Ingegerd Nilsson, David Aler, Linnéa Sallay, Lars Palerius, hljómsveit stj. Per Borin
Alls 5 sýningar

Útgefið:
ITM 7-01 Karólína Eiríksdóttir - Portrait:
2. þáttur
Ingegerd Nilsson, sópran, Dies Caniculares Festival Orchestra, stj. Per Borin