Á döfinni Verkalisti Ferilskrá Útgáfur English
Karólína
Eiríksdóttir



Tölvupóstur


Kammerverk


Landið þitt er ekki til

fyrir mezzósópran, trompet og gítar
2011
myndbandsverk

Landið þitt er ekki til er myndband eftir Ólaf Ólafsson og Libiu Castro.
Verkið var frumflutt á gondola á síkjum Feneyja við opnun Feneyjatvíæringsins 2. júní 2011. Myndbandið var hluti af sýningu Ólafs og Libiu á Feneyjatvíæringnum 2011 sem stóð til 27. nóvember.

Flytjendur: Ásgerður Júníusdóttir, mezzósópran, David Boato, trompett og Alberto Mesirca, gítar.


Sýsl á víxl

Sýsl á víxl

fyrir marimbu og píanó
2009

Sýsl á víxl er skrifað fyrir Tinnu Þorsteinsdóttur, píanóleikara og Frank Aarnink, slagverksleikara.

Frumflutningur: Myrkir músíkdagar, Hafnarborg, 7. febrúar 2009


Tríó

2008
10'

Samið fyrir Tríó Reykjavíkur í tilefni 20 ára afmælis tríósins. Tríó Reykjavíkur skipa: Guðný Guðmundsdóttir, fiðla, Gunnar Kvaran, selló og Peter Máté, píanó.

Frumflutningur í Hafnarborg 29. mars, 2009.


The Caregivers

sópran, óbó og kvennakór

2008
14'
Tónlistarmyndband.

The Caregivers er samið að beiðni myndlistardúósins Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar við texta eftir Davide Berretta. Verkið fjallar um úkraínskar konur sem annast aldraða á Ítalíu, en þær eru einhvers staðar á bilinu sexhundruð þúsund til ein milljón.

Frumsýning: Evróputvíæringurinn Manifesta 7, Trentino Aldo Adige á Ítalíu, 19. júlí - 2. nóvember 2008. Flytjendur: Ingibjörg Guðjónsdóttir, sópran, Matthías Nardeau, óbóleikari og Kvennakór Garðabæjar undir stjórn Ingibjargar Guðjónsdóttur.


Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands

fyrir sópran, barítón, píanó, kontrabassa og blandaðan kór.
2008
40'

Verkefnið er samstarfsverkefni myndlistardúósins Libiu Castro og Ólafs Ólafsson og Karólínu Eiríksdóttur. Libia og Ólafur fóru þess á leit við Karólínu að hún semdi tónverk þar sem allar 81 greinar stjórnarskrárinnar væru sungnar.
Með verkinu halda Libia og Ólafur áfram að rannsaka og endurspegla persónuleg og samfélagsleg málefni, blanda þeim saman og vinna á mörkum hins raunverulega og hins skáldaða og með því að snúa lagalegum grunni samfélagsins, stjórnarskránni, yfir á huglægt form lista, gefa þau fólki kost á að meta þennan lagagrunn út frá sjónarhorni þar sem segja má að annarskonar þyngdarafl sé í gildi.

Frumflutningur: Laugardaginn 15. mars 2008, klukkan 14:00 í Ketilshúsinu í Listagilinu á Akureyri.
Flytjendur: Ingibjörg Guðjónsdóttir, sópran; Bergþór Pálsson, baritón; Tinna Þorsteinsdóttir, píanóleikari; Gunnlaugur Torfi Stefánsson, kontrabassaleikari og kammerkórinn Hymnódía undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar.

Flutningurinn er liður í myndlistarsýningunni Bæ-Bæ Ísland sem opnar klukkan 15:00 í Listasafninu á Akureyri, sýningarstjóri hennar er Hannes Sigurðsson.


Stjörnumuldur

fyrir flautu og píanó
2008
12'

Skrifað fyrir Berglindi Maríu Tómasdóttur, flautuleikara og Tinnu Þorsteinsdóttur, píanóleikara, sem frumfluttu verkið á Myrkum Músíkdögum 2008.
Stjörnumuldur er í fjórum köflum.

Frumflutningur: Tónleikar Njútons á Myrkum Músíkdögum í Iðnó þann 5. febrúar 2008 kl: 20.00.


Sameindir

fiðla og selló
2003

Sameindir eru skrifaðar fyrir Guðnýju Guðmundsdóttur og Gunnar Kvaran.
Verkið var frumflutt á heiðurstónleikum í tilefni 30 ára starfsafmælis Guðnýjar á Listahátíð í Reykjavík 2004.
Sameindir eru sjö stuttmyndir fyrir fiðlu og selló.

Frumflutningur: Listahátíð í Reykjavík í Íslensku óperunni, 18. maí 2004, Guðný Guðmundsdóttir, fiðla og Gunnar Kvaran, selló


Strenglag

víóla og píanó

2002

Strenglag fyrir víólu og píanó er í þremur köflum. Miðkaflinn er þeirra lengstur og er rammaður inn af prelúdíu og póstlúdíu. Guðrún Hrund Harðardóttir og Tinna Þorsteinsdóttir frumfluttu verkið í Listasafni Íslands 8. október 2005 á tónleikum með verkum eftir Karólínu Eiríksdóttur.

Frumflutningur: Listasafn íslands, 8. október 2005, Guðrún Hrund Harðardóttir, víóla og Tinna Þorsteinsdóttir, píanó


Höfuðstafir

Fl., óbó, kl., vln., vlc., kb.
2002

Höfuðstafir voru skrifaðir fyrir Caput hópinn, sem frumflutti verkið í október 2002 á tónleikum með verkum eftir Karólínu Eiríksdóttur.

Frumflutningur: 19. október 2002, 15:15 í Borgarleikhúsinu, Caput: Kolbeinn Bjarnason, flauta, Eydís Franzdóttir, óbó, Guðni Franzson, klarinett, Zbigniew Dubik, fiðla, Sigurður Halldórsson, selló, Hávarður Tryggvason, kontrabassi


Að iðka gott til æru

Fyrir mezzósópran, óbó, víólu, selló, sembal og blandaðan kór
2001
ca. 13'

Að iðka gott til æru er samið fyrir Sumartónleika í Skálholti 2001 fyrir Ásgerði Júníusdóttur, Kammerkór Suðurlands og fjóra hljóðfæraleikara. Kaflarnir eru þrír og byggja allir á lögum sem fundist hafa í íslenskum handritum. Fyrri hluti textans er eftir Hallgrím Pétursson (1614-1674) en seinni hlutinn er eftir Jón Þorsteinsson (um 1570-1627). Hver kafli byggir á einu lagi og eru notaðar ýmsar aðferðir til að vinna úr lögunum, sumar hverjar hefðbundnar og eiga rætur að rekja allt til endurreisnartímabilsins.

Frumflutningur: Sumartónleikar í Skálholti 14. júlí 2001, Ásgerður Júníusdóttir, mezzósópran, Peter Tompkins, óbó, Jónína Auður Hilmarsdóttir, víóla, Sigurður Bjarki Gunnarsson, selló, Helga Ingólfsdóttir, semball, Kammerkór Suðurlands, stj. Hilmar Örn Agnarsson


Capriccio

Kl. & pno.
1999
ca. 12'

Capriccio er samið fyrir Einar Jóhannesson og Örn Magnússon. Þeir frumfluttu verkið í Salnum í Kópavogi í apríl 2001. Verkið er í einum þætti, þar sem raddir hljóðfæranna eru samtvinnaðar úr sameiginlegum efniviði allt til loka.

Frumflutningur: Salurinn, 8. apríl 2001, Einar Jóhannesson, klarinett, Örn Magnússon, píanó


Miniatures

Kl., vln., vlc. & pno.
1999

Miniatures samanstendur af fjórum stuttum köflum, sem byggja á örhugmyndum er þjóta hjá áður en varir. Hver kafli er svipmynd með eigin karakter. Svissneskir tónlistarunnendur pöntuðu verkið til flutnings á tónleikum í Sviss með verkum eftir Karólínu. Verkið var frumflutt í Baden í Sviss árið 1999. Caput frumflutti verkið á Íslandi á tónleikum með verkum eftir Karólínu Eiríksdóttur í Borgarleikhúsinu í október 2002.

Frumflutningur: 25. apríl 1999, Buchhandlung Librium, Baden í Sviss, Matthias Müller, klarinett, Marianne Aeschbacher, fiðla, Martina Schucan, selló, Regula Stibi, píanó


Saxófónkvartett

1998

Saxófónkvartett var pantaður af NOMUS fyrir The Stockholm Saxophone Quartet árið 1998. Verkið er í fjórum köflum; prelúdía, rondó, adagio og kanon.


Impromtu

Fl., vln., vlc. & pno.
1994

Impromtu var samið að beiðni sænskra hljóðfæraleikara sem fengu þá hugmynd að panta 22 ný verk af norrænum tónskáldum til flutnings á börum á Norðurlöndum. Með pöntuninni fylgdu sú beiðni að tónskáldin máttu ekki aðlaga stíl verksina að aðstæðum, heldur halda sínu striki. Verkefnið kölluðu þeir “perlur fyrir svín”. Verkin voru flutt á börum víðsvegar um Norðurlönd en vegna óheppilegra aðstæðna á barnum sem varð fyrir valinu í Reykjavík má segja að verkið hafi farið fyrir ofan garð og neðan það kvöld. Verkið var flutt af Caput hópnum á tónleikum í október 2002.


Frábæra, bæra

Gamalt íslenskt sálmalag
útsett fyrir sópran, viola da gamba og sembal
1994
Sálmur eftir Jón Píslarvott


Spil

2 fl.
1993
ca. 9'

Karólína samdi Spil (1993) fyrir flautuleikarana Martial Nardeau og Guðrúnu S. Birgisdóttur og fluttu þau verkið í fyrsta sinn á tónleikum í París 1994.

Kaflarnir eru þrír og er sá síðasti þeirra lengstur og viðamestur. Fyrsti kaflinn hefst á sólói fyrir altflautu en um síðir tekur efri flautan undir og leikur þeirra tvinnast saman. Hreyfingin eykst og strófurnar taka hver við af annarri með stefnuna upp á við.

Annar kaflinn er stutt millispil þar sem ólíkum en afmörkuðum hugmyndum er teflt saman. Mest einkennandi er þegar flauturnar leika í jafnri hreyfingu, sú efri legato og sú neðri staccato.

Í upphafi þriðja kaflans liggja flauturnar í efsta tónsviði. Langar yfirtónalínur, oft í ómstríðum tónbilum, mynda eins og þunna slæðu sem svífur yfir. Smám saman kvarnast úr línunum, brotin leita niðurávið, og raðast saman að nýju en nú á neðsta sviði. Aftur leysist úr samfellunni, tónlistin verður kvik á ný og leikurinn berst um allt sviðið. Örstutt stefjabrot eflast að magni, skarast í fyrstu en falla saman er líður á. Brotin mynda kraftmikla bálka sem leiða verkið til loka.

Hjálmar H. Ragnarsson

Frumflutningur: Cité Internationale des Arts, París, 13. september 1994, Guðrún S. Birgisdóttir og Martial Nardeau, flautur


Útgefið:
smk 13 Karólína Eiríksdóttir - Spil: Guðrún S. Birgisdóttir og Martial Nardeau, flautur


Na Carenza

Mezzósópran, óbó og víóla.
1993
ca. 7'

Na Carenza var samið að tilstuðlan austurríska tónlistarfræðingsins Regina Himmelbauer. Hugmyndin var að fá kventónskáld víðsvegar úr heiminum til að semja verk við kvæði kvenkyns trúbadúra, en trúbadúramenningin blómstraði í Suður Frakklandi og víðar í Suður Evrópu á miðöldum. Talsvert af kvæðum kventrúbadúranna hafa varðveist, en engin laga þeirra. Na Carenza var frumflutt á alþjóðlegri tónlistarhátíð kvenna í Vínarborg árið 1995 en frumflutningur á Íslandi fór fram í Skálholti sumarið 2001.

Frumflutningur: Vínarborg 30. apríl 1995, Kristin Nordeval, mezzósópran


Renku

Vln., vlc., kl. & pno.
1992
10'30''

Renku var skrifað að beiðni Michio Nakajima og lauk smíði þess í júlí 1992.
Renku er japanskt orð yfir ljóðform, sem minnir á íslensku listina að kveðast á. Eitt skáld byrjar á að kasta fram vísu sem næsta skáld svarar og síðan koll af kolli. Skáldin þurfa að fylgja ýmsum reglum í ljóðagerðinni, til dæmis er fyrsta erindið byggt á 17 atkvæðum (5-7-5) en það næsta á 14 (7-7) og þannig áfram til skiptis. Útkoman er ljóðaflokkur, sem nefnist Renku, og er algengur fjöldi erinda 36. Yrkisefnin geta verið fjölbreytt, en kirsuberjablómin og tunglið eru þeirra vinsælust.
Í tónverkinu Renku er þetta ljóðform notað sem lauslegur grunnur fyrir form verksins og framvindu og þá einkum renkuflokkurinn Sumartungl, sem ortur var á 17. öld undir forystu hins fræga ljóðskálds Matsuo Basho. Verkið er samið fyrir þau Einar Jóhannesson, Auði Hafsteinsdóttur, Bryndísi Höllu Gylfadóttur og Örn Magnússon.
Renku hefur verið flutt í Japan, Lincoln Center í New York, Kuhmo tónlistarhátíðinni í Finnlandi og á Íslandi.

Frumflutningur: Myrkir Músíkdagar á Kjarvalsstöðum, 7. febrúar 1993; Ýmir: Einar Jóhannesson, klarinett, Auður Hafsteinsdóttir, fiðla, Bryndís Halla Gylfadóttir, selló, Örn Magnússon, píanó

Útgefið:
ITM 8-03 Icelandic Chamber Music - Ýmir Ensemble


Mutanza-Umröðun

Fl., óbó, kl., hn., fgt. & semball
1991
ca. 13'

Mutanza - Umröðun var skrifað að tilhlutan Blásarakvintetts Reykjavíkur fyrir 10 ára afmælistónleika þeirra. Verkið er í þremur köflum, þar sem sá fyrsti er eins konar upphitunarkafli, annar kaflinn er einfaldlega hægi kaflinn í verkinu, en í þeim þriðja syngur hver með sínu nefi. Nafnið Mutanza (sextándu aldar orð yfir tilbrigði) - Umröðun er til komið vegna þess að segja má að verkið sé sífelld tilbrigði um sama efni þó að það sé ef til vill ekki mjög auðheyranlegt.

Frumflutningur: 22. okt. 1991, Listasafn Íslands; Blásarakvintett Reykjavíkur og Robyn Koh


Tríó

Vln., vlc. & pno.
1987
ca. 9'

Tríó var skrifað fyrir Tríó Reykjavíkur, þau Guðnýju Guðmundsdóttur, Gunnar Kvaran og Halldór Haraldsson. Verkið var flumflutt á Skerpluhátíð Musica Nova 1987.

Frumflutningur: 28. maí 1987; Musica Nova í Norræna Húsinu; Guðný Guðmundsdóttir, Gunnar Kvaran, Halldór Haraldsson

Útgefið:
ITM 7-01 Karólína Eiríksdóttir - Portrait: Tríó Reykjavíkur


Sex lög fyrir strengjakvartett

2 vln., vla. & vlc.
1983
ca. 8'

Sex lög fyrir strengjakvartett voru samin árið 1983 fyrir Berwald strengjakvartettinn að beiðni sænsku ríkiskonsertanna fyrir tónleikaferð um Svíþjóð og Ísland árið 1984.
Verkið skiptist í sex nafnlausa, stutta kafla.

Frumflutningur: Täby í Svíþjóð, 23.febrúar 1884, Berwald Strengjakvartettinn


Sumir dagar

Sópran og kammerhópur (fl., kl., vlc. & pno.) eða (fl., kl.,vlc., semb. & gít.)
1983
12'30''
Texti Þorsteinn frá Hamri
6 ljóð: Gunnarshólmi, Eign, Sannleikurinn, Í hrapinu, Kvöld, Sumir dagar

SUMIR DAGAR voru samdir árið 1982 og var hljóðfæraskipan þá sópran, flauta, klarinett, selló og píanó. Vorið 1991 voru SUMIR DAGAR umskrifaðir fyrir Sumartónleika í Skálholti og komu þá semball og gítar í stað píanós áður. Verkið er skrifað við sex ljóð eftir Þorstein frá Hamri; Gunnarshólmi, Eign, Sannleikurinn, Í hrapinu, Kvöld og Sumir dagar.

Frumflutningur: 21. feb. 1982, Musica Nova, Norræna Húsið; Signý Sæmundsdóttir, Bernard Wilkinson, Einar Jóhannesson, Gunnar Kvaran, Guðríður St. Sigurðardóttir

Frumflutningur 2. útgáfu: 13. júlí 1991 á Sumartónleikum í Skálholti; Signý Sæmundsdóttir, Kolbeinn Bjarnason, Einar Jóhannesson, Helga Ingólfsdóttir, Einar Kristján Einarsson og Sigurður Halldórsson.


Ýlir

f. fg. hn. tpt. bás

Samið fyrir stofntónleika Musica Nova, tólf íslensk tónskáld sömdu 12 stutt verk sem báru heiti gömlu íslensku mánaðanna.

Frumflutningur: 8. júní 1981, Musica Nova að Kjarvalsstöðum


IVP

Fl., vln. & vlc.
1977
ca. 7'

IVP var samið sumarið 1977 og fyrst flutt í Ann Arbor í Michigan árið 1978. Verkið er í fjórum stuttum köflum. Þeir byggja að nokkru leyti á sömu grunnhugmyndum, en þær eru sýndar í nýju ljósi í hvert skipti. Hver kafli er því sjálfstæð eining innan heildarramma verksins.


Japönsk ljóð

Mezzósópran, flauta og selló
1978
ca. 4'30''

Sex japönsk ljóð voru samin árið 1977 og frumflutt í Ann Arbor í Michigan.
Í japanskri ljóðlist eru dregnar fram stuttar svipmyndir í sem fæstum orðum. Sex japönsk ljóð bera keim af þessu ljóðformi, og er útkoman þess vegna sex "míníatúr" tónverk.

Útgefið:
DACOCD 423 New Nordic Chamber Music, Wärme-Quartet